Travel Update

 

Menu

Vilt þú skapa góðar minningar?

Hefur þú áhuga á starfa hjá einu stærsta (og klárlega vinalegasta) ferðaþjónustufyrirtæki landsins?

Nordic Visitor er framsækin ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í því að skapa góðar minningar með sérsniðnum pakkaferðum fyrir einstaklinga og hópa til Norður Evrópu. Fyrirtækið hefur verið í stöðugum vexti frá stofnun þess árið 2002 og er í dag eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki Íslands með um 100 starfsmenn. Við bjóðum upp á lifandi vinnustað, metnaðarfulla mannauðsstefnu, tækifæri til starfsþróunar og frábæra starfsaðstöðu á aðalskrifstofu fyrirtækisins á Bíldshöfða 20.

Vinnustaðurinn Nordic Visitor

Mannauður

Hjá Nordic Visitor starfar framúrskarandi starfsfólk sem sýnir ábyrgð, mikla þjónustulund, jákvæðni og frumkvæði í starfi. Mikil áhersla hefur verið lögð á mannauðsmál innan fyrirtækisins og vellíðan í starfi. Starfsmenn eru vel þjálfaðir, mikil þekking hefur byggst upp hjá fyrirtækinu og starfsmannavelta hjá Nordic Visitor er með því minnsta sem þekkist.

Samkvæmt nýjustu viðhorfskönnun meðal starfsmanna, sem unnin var af fagaðilum, er viðhorf starfsmanna til Nordic Visitor, bæði sem vinnuveitanda og fyrirtækis, mjög gott. Fyrir staðhæfinguna: „Á heildina litið er ég ánægð(ur) með Nordic Visitor sem vinnuveitanda“, var útkoman 4,69 (þar sem einkunnin 1 táknar mjög ósammála og 5 mjög sammála). Í sömu könnun kom í ljós að stolt starfsmanna mælist mikið: „Ég er stolt(ur) af því að vinna hjá Nordic Visitor“, útkoman var 4,90 af 5 mögulegum.

Verkferlar og skipulag

Frá árinu 2002 hefur jafnt og þétt verið unnið að því að skipuleggja starfsemina og bæta verkferla. Búið er að innleiða árangursríkt skipurit og þróa verkferla og flæðirit utan um öll okkar helstu verkefni. Mjög nákvæmt viðskiptakerfi, sem talar bæði við okkar ytri vefsvæði og bókhaldskerfi, hefur verið þróað og aðlagað að okkar starfsemi í gegnum árin. Þetta kerfi heldur nákvæma skrá yfir allar okkar ferðir, sem og tekjur og útgjöld. Umfangsmikil starfsmannahandbók kemur út árlega, til eru starfslýsingar fyrir öll störf, unnið er eftir faglegri fræðsluáætlun og skýr stefnumótun er til staðar fyrir fyrirtækið.

Þess má geta að Nordic Visitor hlaut menntaverðlaun atvinnulífsins árið 2014 sem „Menntasproti ársins“.

Nordic Visitor er Fyrirmyndarfyrirtæki 2020

Samkvæmt stærstu vinnumarkaðskönnun sem gerð er á Íslandi á ári hverju, Fyrirtæki ársins, er Nordic Visitor á meðal efstu fyrirtækja í sínum stærðarflokki sjötta árið í röð. Síðastliðin fjögur ár 2017, 2018, 2019 og 2020 hefur fyrirtækið hlotið titilinn Fyrirtæki ársins ásamt fimm öðrum íslenskum fyrirtækjum fyrst í flokki stórra fyrirtækja og árið 2020 í flokki meðalstórra fyrirtækja. Markmið könnunarinnar er að kanna aðbúnað og líðan starfsmanna, viðhorf þeirra til stjórnenda og hvernig samskiptum er háttað svo fátt eitt sé nefnt. Svona viðurkenning er ekki sjálfgefin og er hún fyrirtækinu verulega dýrmæt þar sem hún er staðfesting frá fólkinu sem stendur á bakvið Nordic Visitor um að við séum á réttri leið þegar kemur að stefnu og áherslu í mannauðsmálum.

Starfsaðstaða

Nordic Visitor flutti starfsemi sína á Bíldshöfða 20, 110 Reykjavík, í lok árs 2016. Skrifstofan er um 1600 fm að stærð, vinnuumhverfið er hlýlegt og bjart og var hannað og skipulagt í samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins. Á skrifstofunni er stórt og gott mötuneyti þar sem starfsmönnum er boðið uppá mat á vinnutíma þeim að kostnaðarlausu.

Starfsandi

Þegar starfsmenn voru spurðir að því í síðustu viðhorfskönnun hvort þeir væru sammála þeirri staðhæfingu að það væri góður starfsandi hjá Nordic Visitor, var útkoman 4,65 (þar sem 5 er hæsta einkunn). Mikið er lagt upp úr því að viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum samskiptum á milli starfsmanna. Starfsmannafélagið er mjög virkt og reglulega eru haldnar skemmtanir á vegum fyrirtækisins sem og skemmtinefndar.

Meira um okkur

We are here to help

Whether you have a single question or a special request, we're here for you.

here to help